Sauðfjárræktarfélag Helgafellssveitar og nágrennis

Félag með metnað
xxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxx

Héraðsmeistarinn 2018

Smella á hér fyrir neðan
http://isak.123.is/blog/2018/10/23/787643/


xxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxx

Um:

Formaður: Guðlaug Sigurðardóttir Ritari: Valdimar Kúld Björnsson Gjaldkeri: Guðrún K. Reynisdóttir Umsjón með heimasíðu: Sumarliði Ásgeirsson Ferðanefnd: Þorsteinn Kúld Björnsson og Gunnar Jónsson Fræðslufulltrúi: Harpa Björk Eiríksdóttir Reikn. Sauðfjárræktarfél. 0309-13-300141 Kt.150657-5639 Hrútafélagið Jökull 0309-13-300140 Kt.150657-5639

Tenglar

Færslur: 2009 Janúar

11.01.2009 17:41

Fjörulallinn

Þessi þjóðsaga á vel við nú í lok fengitíma.                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                        Þar sem fjörubeit var, þurfti að hafa góða gát á fénu á fengitíma, því að til var kvikindi, sem var á stærð við sauðkind og var kallað fjörulalli. Hann lá á því lúalagi að vera áleitinn við ærnar. Lömb þau, sem undan honum komu, voru máttlaus að aftan og oft vansköpuð. Einkum þótti verða vart við fjörulallann í Breiðafjarðareyjum og á Vestfjörðum. ( Máttleysið er fjöruskjögrið, sem stafar af koparskorti).

11.01.2009 17:28

Stofnun Sauðfjárræktarfélags Helgafellssveitar og nágrennis

Aðalfundur í sauðfjárræktarfélagi Helgafellssveitar og nágrennis, haldin að Skildi 27. febrúar 2004.

1. Fundarsetning.
Formaður, Eiríkur Helgason, setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

2. Menningarferð félagsins.
Rætt var um menningarferð félagsins, sem farin var 26. apríl 2003. Góð þátttaka var meðal félagsmanna og maka þeirra en einnig var félögum í sauðfjárræktarfélaginu Búa boðið með og þáðu tveir meðlimir það boð.
Lagt var af stað kl. 10 og haldið inná Dunk í Dalabyggð, síðan ekið inn í Búðardal þar sem við snæddum léttan hádegisverð. Svo var ferðinni haldið áfram og komið við á Höskuldsstöðum, Lambeyrum og Hrútsstöðum. Okkur var allstaðar afar vel tekið. Þessi sauðfjárbú höfðu öll nýlega breytt gjafaaðstöðu hjá sér með gjafagrindum í ýmsum útfærslum.
Því næst var ferðinni heitið að Eiríksstöðum þar sem ferðalöngunum var boðið uppá hákarl og brennivín og Steindór Andersen kvað fyrir okkur rímur. Að endingu var ekið inn að Stóra-Vatnshorni og borðaður kvöldverður og síðan fengum við að kíkja í fjárhúsin en eftir það var haldið heim á leið.
Vildi formaður þakka ferðanefndinni þ.e.a.s. Siggu í Bjarnarhöfn fyrir vel skipulagða og skemmtilega ferð og voru fundarmenn sammála því, og vildu eindregið hafa hana áfram í skemmtinefnd.

3. Skýrsluhaldið.
Eiríkur las niðurstöður úr yfirlitsskýrslum félagsins fyrir árið 2001-2002.
Hrútur með hæstu heildareinkun fyrir lömb og dætur var Fjarki 91001 með 111 í einkunn og var hann í eigu Bjarnarhafnarbúsins. Hrútur númer 96062 var með hæstu einkunn fyrir lömb er líka með 111 í einkunn og er í eigu sama bús, Kambur 92023 var með hæstu einkunn fyrir dætur eða 118 en hann er líka í eigu Bjarnarhafnarbúsins.
Með hæstu einkunn fyrir fitu samkvæmt BLUP var svo hrútur nr. 92279 með 126 fyrir fitu og var hann í eigu Þorsteins Jónassonar.
Hæstur fyrir gerð samkvæmt BLUP var svo hrútur nr. 00464 með 117 fyrir gerð og er hann í eigu Agnars Jónassonar.
Með hæstu heildar BLUP mat var svo Dalakollur 00442 með samanlagt fyrir gerð og fitu 114,6 og er hann frá Hraunhálsi.
Eiríkur Helgason Stykkishólmi var með hæstu afurðir eftir hverja á eða 35 kg. Tvílemban var að skila 40,3 kg., en einlemban 24.5 kg.
Ærnar á Hraunhálsi voru með mestu frjósemina eða 2,02 lömb á hverja á. Alls voru á skrá í félaginu 1198 ær.

4. Reikningar.
Gjaldkeri Agnar Jónasson las upp reikninga félagsins, eign um áramót 2003-2004 var 361.613 kr. Reikningarnir voru samþykktir samhljóða.

5. Kosningar.
Gengið var til kosninga ritari átti að ganga úr stjórn en var endurkjörinn.

6. Hrútasýning.
Hrútasýning var haldin 27. september og var góð þátttaka, skoðuð voru 86 lömb og hrútar. Formaður vakti máls á því að það væri 50% álag á tímakaup skoðunnarmanna um helgar og kvöld og því væri kostnaður sauðfjáreigand mikill við sýningar haldið. Því þyrftum við að skoða hvort annar tími gæti hentað. Einnig kvaðst hann hafa farið á fund í Borgarnesi í haust þar sem hefði komið fram almenn óánægja meðal bænda um hversu kostnaðarsamt væri að fá ráðunauta í lamba- og hrútadóma.
Þá var komið að afhendingu verðlaunaskjala sem Eyberg á Hraunhálsi hefur tekið að sér að búa til fyrir félagið eins og undan gengin haust. Besti hyrnti veturgamli hrútur haustsins 2003 var Skjöldur 02-024, fékk hann 83,5 stig og er í eigu Brynjars Hildibrandssonar Bjarnarhöfn. Besti kollótti veturgamli hrúturinn var svo Þróttur 02-507 með 84,5 stig og er hann í eigu Eiríks Helgasonar Hólatúni, Stykkishólmi.
Bestu lambhrútar haustins röðuðust svo í eftirfarandi röð, óháð því hvort þeir voru hyrntir eða ekki. Allir stiguðust þeir með 83.5 stig.
Bestur taldist lambhrútur Guðlaugar á Hraunhálsi, nr. 007, faðir hans er Dreitill 00-891 en móðir er Alúð 02-270 og er móðurfaðir Draupnir 98-437. Annar í röð var svo lambhrútur Eiríks á Hólatúni Sth. En númer hans er 051, faðir hans er Þrymur 02-502, móðir er Garðabrúða 01-163 og mf. Mörður 00-441. Þriðji var svo lambhrútur í eigu Brynjars í Bjarnarhöfn, nr. 1702 faðir hans er Bútur 01-151, móðir 99-702 og mf. Er Jökull frá Álftavatni. Hrútur númer tvö í röðinni er kollóttur en hinir hyrntir.
Veitt voru verðlaun fyrir þrjá bestu lambhrúta félagsmanna á sýningunni og voru þau gefin af Stefáni Bjarnasyni (Vélum og Þjónustu) og voru það klaufklippur, lambastafur og belti fyrir skeiðar sigs té. Vildi formaður koma á framfæri þakklæti til hans fyrir frábært framtak. Verðlaunaskyldirnir fyrir veturgamla hrúta voru afhentir verðlaunahöfum á sýningunni.

7. Árgjald félagsins.
Ákveðið var að halda áfram að láta félaga borga árgjald sem rennur í ferðasjóð, árgjaldið er 1000 kr., og eru vinsamleg tilmæli að það verði greitt fyrir 1 apríl 2004 inn á reikning félagsins, nr. reikningsins er 0309-03-255424 og kt. 270662-3909.

8. Önnur mál.
Formaður sýndi eyrnarmerki í ær og lömb sem honum voru send til kynningar frá Ástu F. Flosad. og Þorkeli Pálss. Höfða I Akureyri en veffang þeirra er www.ma.is/kenn/asta/buskapur/fjarmerki/.htm
Góður árangur virðist ætla að vera í sæðingum haustsins en þátttaka félagsmanna var dræm.
Hannes Gunnarsson vakti máls á því að hann væri ósáttur við reglugerð landbúnaðarráðuneytisins um að öll sláturhús þyrftu að hafa útflutningsleyfi og voru fundarmenn sammála því og spunnust um það nokkrar umræður og um fækkun sláturhúsa, var ákveðið á fundinum að mótmæla þessari reglugerð og var ritara falið að senda ráðherra mótmæli fundarinns.

Fleira ekki gert og fundi slitið.
Á fundinn mættu.
Eiríkur Helgason, Agnar Jónasson, Guðlaug Sigurðardóttir, Jóhannes Eyberg Ragnarsson, Héðinn Fífill Valdimarsson, Hannes Gunnarsson og Þorsteinn Jónasson. 


Aðalfundur sauðfjárræktarfélags Helgafellssveitar og nágrennis, haldin að Skildi 21. nóv 2002.

 

1.      Formaður Eiríkur Helgason, setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

2.      Formaður las upp niðurstöður úr yfirlitsskýrslum félagsins fyrir árið 2000-2001 fyrir afurðir og fleira.

Héðinn Fífill Valdimarsson Stykkishólmi var með hæstu afurðir eftir hverja á 34,9 kg. Hermann Guðmundsson Stykkishólmi var með hæstu afurðir eftir hverja tvílembu 36,6 kg. En Bjarnarhafnarbúið átti þann hrút sem var með hæstu heildareinkunn fyrir lömb og dætur og var það hrútur nr. 96-062 sem var með 107 í einkunn.

Einnig afhenti formaður verðlaunaskjöl fyrir hæst stiguðu hrútana haustið 2002.

Hæst stigaði hyrnti hrúturinn var Bútur 01-151 og er hann í eigu Þorsteins Kúlds Björnssonar Stykkishólmi og var hann með 84 stig. Hæst stigaði kollótti hrúturinn var Hellir 01-448 frá Hraunhálsi með 85 stig.

3.      Gjaldkeri Agnar Jónasson gerði grein fyrir reikningum félagsins. Eign um áramótin 2001-2002 var 350.204 kr. Og voru þeir samþykktir samhljóða.

4.      Inntaka nýrra félaga. Þrír sóttu um að ganga í félagið og voru það þeir,

Guðmundur Benjamínsson Stykkishólmi, Hannes Gunnarsson Stykkishólmi og Hilmar Hallvarðsson "Þingvöllum" og voru þeir boðnir velkomnir í félagið.

5.    Gengið var til kosninga. Ritari og gjaldkeri áttu að ganga úr stjórn en voru endurkjörnir.

6.        Önnur mál.

Ákveðið var að halda aðalfund félagsins í febrúar ár hvert og að halda þá aukafund að hausti. Einnig var áhugi fyrir því að stefna að árshátíð og þá jafnvel í tengslum við haustfundinn.

Rætt var um hrútasýningu haustsins og fannst flestum fundarmönnum að hún hafi verið allt of snemma þ.e.a.s. 24. sept. Var ákveðið að reyna að hafa hana hér eftir strax í vikunni eftir seinni leit. Kom fram tillaga um að hafa hrútasýninguna 5. okt næsta haust.

Formaður sagði frá því að Búnaðarsamtök Vesturlands mundu sjáum að útvega sæði frá Laugardælum og Möðruvöllum nú í desember, þar sem ekki er starfrækt hrútastöð á Vesturlandi þetta árið. Okkar dagar verða 9.,10. og 11. des. Eins verður möguleiki að fá sæði 20. des. Töldu fundarmenn flestir að fyrri dagarnir væru of snemma og hentuðu þeim illa.

Ákveðið var að félagið tæki ekki þátt í kostnaði við sæðingar eða svömpun þetta árið.

Ritari bar upp þá tillögu að fundargerð fundarins yrði hér eftir send félagsmönnum með tölvupósti til samþykktar og/eða leiðréttingar ef með þyrfti, áður en hún yrði færð í fundargerðarbók. Og var það samþykkt.

Enn einu sinni var talað um það að félagsmenn færu í ferð saman að skoða fé,                   fjárhús og fleira og var ákveðið að láta verða af því í vetur og var besti tíminn talin vera  í apríl. Ekki var tekin ákvörðun um hvert skildi fara, þó kom tillaga um að við mundum sækja heim bændur í Húnavatnssýslu sem komið höfðu hingað 1997.

Ákveðið var að láta félagsmenn borga árgjald, sem rynni í ferðasjóð og yrði það       1000 kr. á mann, með gjalddaga 1. febrúar.

Að lokum urðu umræður um hvort félagið ætti að borga fyrir merki í fullorðið fé félagsmanna, eins og hefð hefur verið fyrir. Engin ákvörðun var tekin um það mál á fundinum og því frestað til aðalfundar í febrúar.

    Á fundin mættu ellefu félagsmenn.

    Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið

 
Stofnun Sauðfjárræktarfélags  Helgafellssveitar og nágrennis

Ár 1952 Sunnudaginn 2. marz voru mættir að Skildi í Helgafellssveit samkvæmt fundarboði, nálega 20 sauðfjáreigendur í Helgafellssveit.                                                                           Tilefnið var ræða um stofnun sauðfjárræktarfélags. Málshefjandi var eini sauðfjáreigandinn, sem mættur var úr Stykkishólmi Ch. Zimsen lyfsali. Gjörði hann tillögu um að kjósa fundarstjóra og fundarritara og voru kosnir eftir uppástungu fundarstjóri Björn Jónsson Kóngsbakka, en fundarritari Guðmundur Guðjónsson Saurum.                                               Að því búnu hóf Zimsen lyfsali máls og skýrði þau lagaákvæði, sem lúta að stofnun og starfrækslu sauðfjárræktarfélags.                                                                                               Eftir framsögn Zimsens hóf Guðlaugur Sigurðsson máls og gat þess að hugmynd hefði verið vakin á Búnaðarsambandsfundi um að stofna sauðfjárræktarfélag í hverri sveit á sambands svæðinu og hefði honum þótt gott að fá svo góðan       liðsmann í þessu máli sem Zimsen lyfsali væri. Ennfremur talaði Guðlaugur um nauðsyn þess að taka ákveðna stefnu í ræktun sauðfjárins.                                                                                                                          Zimsen tók þá til máls            og taldi réttmætt að leggja áherslu á þetta með ákveðna stefnu í sambandi við kynstofna ræktun og rétt tök gagnvart skyldleikarækt. Taldi hann starfsemi að þessum málum auðveldari ef ekki væru mjög fáir, sem að þessum samtökum stæðu og þá með fáar kindur. Skýrði Zimsen nú hversu haga þyrfti vinnubrögðum yfirleitt um sauðfjárræktina hjá hinum einstöku þátttakendum.                                                           Björn Jónsson gerði fyrirspurn um hversu velja skyldi fé til ræktunnar á einstökum bæjum innan samtakanna, og talaði um aukna örðuleika með smitvanda í sambandi við val fjár á mörgum bæjum umfram það, ef safnað væri til eins bús. Zimsen benti þá á að skyldleikaræktunar örðuleikar yrðu meiri á litlum búum, en þessi tiltölulega almennu samtök gerðu blöndun auðveldari, og þótt starfsemin væri ekki jafn fastmótuð og á einstökum fjárræktarbúum þá sýndi reynsla að með sæmilegri vandvirkni fengjust fram góðir einstaklingar og stórbættur fjárstofn. Björn Jónsson minntist þá á hrútajöfnun manna í milli einnig kom hann að nauðsyn þess að fóðra vel.                                                                        Zimsen tók undir nauðsyn góðrar fóðrunar og ræddu þeir um hrútaval og þann vanda, sem þar væri til staðar, og taldi heppilegt að fá aðstoð og vera í samráði við sauðfjárræktarráðanautinn Halldór Pálsson. En þegar í vetur mætti snúa sér að því að velja ærnar. Uppástunga var á baugi um að skifta stofninum eftir því hvort um væri að ræða hyrnda eða kollótta stofna.                                                                                                 Guðmundur Einarsson Staðarbakka taldi erfitt að binda sig við aðeins annan stofninn, Zimsen taldi menn geta haft báða stofna en að kostir kollótta féð væri beitarþol og þurftarminna en hyrnda féð væri frekar tvílembt en þurftarfrekara út frá þessum kostum væri hægt að velja, en annars væru menn óbundnir með það fé sem þeir ekki hefðu skráð í fjárræktarsamtökin. Þegar hér var komið var gengið til atkvæða um félagsstofnun og samþykkt af meiri hluta fundarmanna, er skráðu nöfn sín til þátttöku. Stjórnar kostning hófst að því búnu og voru þessir menn til kosnir.

1.      Christian Zimsen Stykkishólmi (12 atkv.)

2.      Guðlaugur Sigurðsson Hrísum (11 atkv.)

3.      Bergsteinn Þorsteinsson Svelgsá ( 7 atkv.)

Varam. Guðmundur á Staðarbakka Halldór á Sólbakka                                                              

Björn Jónsson las því næst lög þau sem sauðfjárræktarfélögum ber að starfa eftir. Endurskoðendur kosnir Björn Jónsson og Guðmundur Guðjónsson.                                   Þessir menn eru skráðir þátttakendur í ný stofnuðu sauðfjárræktarfélagi:

Björn Jónsson Kóngsbakka

Guðmundur Gíslasson Kárstöðum

Guðlaugur Sigurðsson Hrísum

Gunnar Guðjónsson Hofstöðum

Halldór Jóhannsson Sólbakka

Hinnrik Jóhannsson Helgafelli

C. Zimsen Stykkishólmi

Bæring Elísson Efri Hlíð

Guðmundur Einarsson Staðarbakka

Guðmundur Guðjónsson Saurum

Páll Daníelsson Hraunsfirði

Valdimar Jóhannsson Kljá

Kristján Sveinsson Hólum

Bergsreinn Þorsteinsson Svelgsá

Kristján Jóhannsson Þingvöllum

Fleira ekki fyrir tekið. Fundi slitð

Björn Jónsson fundarstjóri

Guðmundur Guðjónsson fundarritari


Þátttöku hafa tilkynt utan fundar:

Gísli Gíslasson Kárstöðum

Bjarni Jónsson Bjarnarhöfn

Daníel Matthíasson Hraunsfirði

Reynir Guðlaugsson Hrísum

Magnús Sveinsson Hólum

Jónas Þorsteinsson Y. Kóngsbakka

Þorsteinn Jónasson Y. Kóngsbakka.


                       

  • 1
Flettingar í dag: 158
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 111
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 828957
Samtals gestir: 126042
Tölur uppfærðar: 19.7.2019 16:42:32